Tilkynnt var um eldsvoða á Stuðlum um klukkan 6:40 í morgun. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við fréttastofu kveðst ekkert geta tjáð sig um mögulegt eldsupptök, rannsókn sé í gangi og vettvangur innsiglaður.
Vistmaður og starfsmaður voru fluttir á bráðamóttöku en Skúli hefur ekki upplýsingar um líðan þeirra. Eldurinn hafi verið staðbundinn og komið upp í herbergi einnar álmunnar. Skúla skilst að starfsemi geti haldið áfram að hluta í dag. Nokkrir vistmenn, sjö eða átta, hafi verið í álmunni þegar eldurinn kviknaði. Lögregla ræði nú við vitni og skýrari mynd fáist af atburðarásinni þegar líður á daginn.
Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri Barna- og fjölskyldustofu, sem rekur Stuðla, vildi ekkert tjá sig um málið þegar fréttastofa náði tali af honum. Yfirlýsing verði send út síðar í dag. Ólöf Ásta Farestveit forstjóri Barna- og fjölskyldustofu hefur ekki svarað fréttastofu það sem af er morgni.
Veistu meira um málið? Áttu myndefni af svæðinu? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.