„Við munum senda inn í þessari eða næstu viku umsókn til Samgöngustofu um breytingu á flugvellinum,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, spurð um næstu skref í málinu.
Hún segir að það sé síðan hlutverk Samgöngustofu að meta hvort breytingar á flugvellinum séu í samræmi við loftferðalög og reglugerð um flugvelli. Þar vísar hún til EES-reglugerðar um flugvelli númer 139 frá árinu 2014.

Áttunda grein þeirrar reglugerðar um Verndun flugvallarumhverfis kveður á um að samráð fari fram að því er varðar þau áhrif á öryggi sem byggingar, sem fyrirhugað er að reisa innan marka hindranaflatarins og annarra flata sem tengjast flugvellinum, kunni að hafa.
Níunda grein um Vöktun flugvallarumhverfis kveður jafnframt á um að samráð verði tryggt að því er varðar „hvers konar byggingastarfsemi eða breytingu á landnotkun á flugvallarsvæðinu“ sem og „hvers konar byggingastarfsemi, sem getur valdið því að hindranir valdi ókyrrð í lofti, sem getur verið hættuleg starfrækslu loftfara,“ segir í Evrópureglugerðinni um flugvelli.
Undirskriftasöfnun er í gangi á Ísland.is þar sem skorað er á Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra að afturkalla tilmæli Svandísar Svavarsdóttur til Isavia um að færa girðingu Reykjavíkurflugvallar í Skerjafirði.
Aðspurð segir Sigrún Björk engin ný tilmæli hafa borist frá innviðaráðuneytinu né hafi fyrri tilmæli verið dregin til baka eftir að Svandís hvarf úr ráðherraembætti og Sigurður Ingi tók við málaflokknum á ný.
Hér má heyra hvað þau Svandís og Sigurður Ingi sögðu um málið fyrir tveimur vikum: