Glódís kom í veg fyrir mark Frankfurt með ævintýralegri tæklingu í leiknum en átti einnig sína sök á markinu sem Frankfurt skoraði, eins og sjá má í myndbandi af helstu atvikum hér að neðan.
Glódís var að vanda í vörn Bayern og með fyrirliðabandið, í þessum fyrsta leik eftir landsleikina í Bandaríkjunum og afhendingu Gullboltans, þar sem í ljós kom að Glódís hefði orðið efst miðvarða í kjörinu og í 22. sæti alls yfir bestu knattspyrnukonur heims.
Bayern fékk kjörið tækifæri til að komast yfir strax á þriðju mínútu í kvöld en hin enska Georgia Stanway náði ekki að nýta vítaspyrnu sem liðið fékk.
Glódís var svo ógnandi eftir hornspyrnu skömmu síðar en boltinn endaði ofan á þaknetinu. Bayern komst hins vegar yfir eftir aðra hornspyrnu, á 34. mínútu, þegar hin danska Pernille Harder losaði sig við varnarmann og mætti á fjærstöng.
Laura Freigang virtist ætla að jafna metin fyrir Frankfurt á 50. mínútu en Glódís renndi sér þá frábærlega fyrir boltann, á síðustu stundu.
Bayern fékk færin til að komast í 2-0 en nýtti þau ekki og Frankfurt náði að jafna metin þegar Glódís tapaði návígi við Etonam-Nicole Anyomi, sem komst þar með ein gegn markverði og skoraði sitt fimmta mark á tímabilinu.
Þetta gerir toppbaráttuna í Þýskalandi æsispennandi en Wolfsburg og Bayern eru með 19 stig og jafngóða markatölu, eftir átta umferðir. Leverkusen, með Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur innanborðs, er svo í 3. sæti með 18 stig og Frankfurt í 4. sæti með 17 stig.