Örebro steinlá á útivelli gegn einu besta liði deildarinnar, Häcken, 4-0 í kvöld. Áslaug Dóra var í miðri vörn Örebro allan leikinn og Katla María kom inn á þegar tuttugu mínútur voru eftir, en þá var staðan orðin 3-0.
Örebro er með 19 stig í næstneðsta sæti, þegar aðeins lokaumferðin er eftir um næstu helgi, og getur ekki lengur náð AIK sem er í næsta sæti fyrir ofan með 23 stig. Örebro fellur með Trelleborg sem er langneðst með aðeins þrjú stig.
Í úrvalsdeild karla í Svíþjóð er Norrköping hins vegar búið að bjarga sér frá falli, þó að ein umferð sé eftir, eftir að hafa unnið tvo síðustu leiki sína. Arnór Ingvi tryggði liðinu sigur í síðasta leik og í kvöld vann liðið frábæran 1-0 sigur gegn AIK sem er í 3. sæti deildarinnar. Eina markið var sjálfsmark gestanna um miðjan fyrri hálfleik.
Arnór var á sínum stað í byrjunarliði Norrköping en Ísak sat á bekknum. Arnóri var skipt af velli á 64. mínútu en hann lenti í afar slæmri tæklingu í fyrri hálfleiknum.
Norrköping er nú með 34 stig í 11. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Värnamo sem er í þriðja neðsta sæti, svokölluðu umspilsfallsæti, þegar aðeins lokaumferðin er eftir. Tvö neðstu liðin falla beint niður um deild.
Íslensku markverðirnir á bekknum
Markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson var settur á bekkinn hjá Östersund sem tapaði 2-1 gegn Örgryte á útivelli, þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma. Östersund er í þriðja neðsta sæti fyrir lokaumferðina, jafnt næsta liði fyrir neðan sem er Sundsvall, en tvö lið falla beint niður og næstu tvö fara í umspil um að bjarga sér frá falli.
Í Danmörku var landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson sem fyrr á varamannabekknum hjá FC Kaupmannahöfn, sem gerði 2-2 jafntefli gegn Silkeborg.
FCK er nú með 26 stig í 2.-3. sæti ásamt AGF en Midtjylland er efst með 27 stig. Silkeborg er í 5.-7. sæti með 22 stig líkt og Bröndby og Nodsjælland.