Viðskipti innlent

Stækka gagna­verin á Akur­eyri og í Reykja­nes­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Gagnaver atNorth á Akureyri.
Gagnaver atNorth á Akureyri.

Gagnaversfyrirtækið atNorth hefur hafið stækkun tveggja gagnavera félagsins á Íslandi, ICE02 í Reykjanesbæ og ICE03, á Akureyri.

Í tilkynningu segir að stækkunin komi til vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu gagnavera atNorth frá bæði alþjóðlegum og innlendum viðskiptavinum.

„Heildarfjárfesting atNorth vegna stækkunarinnar nemur 41,2 milljörðum króna, en við bætist fjárfesting viðskiptavina fyrirtækisins í tölvubúnaði sem nemur nálægt 300 milljörðum króna. Um er að ræða umfangsmestu stækkun sem íslenskt gagnaver hefur ráðist og innifelur umtalsvart magn af hátæknibúnaði. Leigja þurfti sérhæft flutningaskip til að flytja hluta búnaðarins og kallaður var til stærsti krani landsins til að hífa búnaðinn inn á lóð gagnaversins.

Hönnun gagnavera atNorth miðar að þörfum fyrirtækja sem vinna með mikið magn gagna og þurfa aðgang að búnaði sem ræður við þunga tölvuvinnslu og útreikninga, og nýtur þeirra kosta sem staðsetningin býður upp á, með aðgangi að hreinni orku og sjálfbærri nálgun atNorth.

Auk gagnaveranna í Reykjanesbæ og á Akureyri rekur atNorth gagnaverið ICE01 í Hafnarfirði, en hjá fyrirtækinu starfa yfir 160 manns, fyrir utan verktaka. Fyrirtækið leggur sig fram við að nýta þjónustu verktaka og annarra á svæði hvers gagnavers fyrir sig, jafnt hér heima sem erlendis.

Þá hefur atNorth gengið til samstarfs við Hringvarma um heimt glatvarma frá gagnaverunum til að nota í matvælaframleiðslu. Hringvarmi kemur til með að setja upp frumgerð búnaðar síns í ICE03 gagnaverinu og nota hitann frá gagnaverinu til að rækta grænspírur (e. microgreens) í samstarfi við Rækta Microfarm,“ segir í tilkynningunni.

atNorth recur nú sjö gagnaver í fjórum af fimm Norðurlöndunum. Þá eru fjögur ný gagnaver í byggingu, tvö í Finnlandi (FIN02 í Helsinki og FIN04 í Kouvola) og tvö í Danmörku (DEN01 í Ballerup og DEN02 í Ølgod í Varde).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×