Priestman var send heim af Ólympíuleikunum og dæmd í eins árs bann frá fótbolta af FIFA eftir að upp komst að þjálfarateymi Kanada hafði notað dróna til að njósna um æfingu andstæðinga þeirra, Nýja-Sjálands. Auk Priestmans voru leikgreinandinn Joseph Lombardi og aðstoðarþjálfarinn Jasmine Mander einnig dæmd í bann.
Kanadíska knattspyrnusambandið lét fara fram sjálfstæða rannsókn á málinu. Meðal niðurstaða hennar var að drónaskandalinn væri lýsandi fyrir óásættanlega menningu sem hefði þrifist innan landsliðsins.
Í gær var svo greint frá því að Priestman, Lombardi og Mander myndu ekki snúa aftur til starfa hjá kanadíska liðinu.
Rannsóknin á drónaskandalnum leiddi í ljós að þetta var ekki í fyrsta sinn sem brögðum sem þessum hafði verið beitt af þjálfarateymi Kanada. Þó fundust engar vísbendingar um að njósnir á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021 þar sem kanadíska liðið stóð uppi sem sigurvegari. Það gæti þó skýrst af öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom þó fram að leikmenn kanadíska liðsins hefðu ekki séð neitt af efninu sem þjálfarateymið aflaði með njósnunum. Einhverjir í þjálfarateymi Kanada settu spurningarmerki við njósnirnar en þögðu þunnu hljóði.
Sex stig voru dregin af Kanada eftir að upp komst um njósnirnar á Ólympíuleikunum. Þrátt fyrir það komst kanadíska liðið upp úr sínum riðli en tapaði fyrir Þýskalandi í átta liða úrslitum.