Erlent

„Valda­skiptin munu ganga svo smurt fyrir sig“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Donald Trump, nýkjörinn Bandaríkjaforseti, og Joe Biden, sitjandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, nýkjörinn Bandaríkjaforseti, og Joe Biden, sitjandi Bandaríkjaforseti. EPA/AL DRAGO

Donald Trump, nýkjörinn og verðandi forseti Bandaríkjanna, fundaði með Joe Biden, sitjandi Bandaríkjaforseta, í dag í Hvíta húsinu, til að ræða komandi valdaskipti. Biden óskaði Trump til hamingju með sigurinn í kosningunum og bauð hann velkominn til baka í Hvíta húsið.

Fréttastofa BBC greinir frá. Báðir sögðust þeir vonast til þess að valdaskiptin verði hnökralaus þegar Trump tekur við embættinu í janúar.

„Takk kærlega fyrir. Pólitík er erfið og oft á tíðum ekkert sérlega indæll heimur til að tilheyra, en það er indæll heimur í dag og ég kann vel að meta að valdaskiptin munu ganga svo smurt fyrir sig. Valdaskiptin munu ganga eins smurt fyrir sig og hægt er. Ég kann að meta það,“ sagði Trump er hann settist niður með Biden. 

Hefðin fyrir því að sitjandi forseti bjóði nýkjörnum forseta á fund sinn í Hvíta húsinu var því endurnýjuð en sú hefð var brotin árið 2020 þegar Trump vék frá þeirri hefð. Eftir að Trump tapaði fyrir Biden í kosningunum 2020 efaðist hann um lögmæti forsetakosninganna og bauð Biden ekki á sinn fund. 

Trump tilkynnti í gær að Pete Hegseth, sjónvarpsmaður hjá Fox News, yrði næsti varnarmálaráðherra landsins. Trump útnefndi jafnframt Elon Musk, athafnamann og eiganda Teslu, sem sérstakan ráðgjafa um niðurskurð og sparnað innan stjórnkerfisins.

Á meðan að Trump og Biden funduðu, komu öldungardeildarþingmenn Repúblikanaflokksins saman og völdu nýjan meirihlutaleiðtoga flokksins í öldungardeildinni. John Thune, öldungardeildarþingmaður frá Suður-Dakóta, varð fyrir valinu eftir tvær umferðir af atkvæðagreiðslu. 

Thune sagði í samtali við fjölmiðla á svæðinu að öldungardeildin ætli að leggja allt kapp á að staðfesta útnefningar Trumps sem allra fyrst. 

John Thune, öldungardeildarþingmaður frá Suður-Dakóta.EPA/SHAWN THEW



Fleiri fréttir

Sjá meira


×