Erlent

Leita óprúttins aðila sem kveikti í kjörkössum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bandaríska Alríkislögreglan hefur birt myndband af íkveikjunni.
Bandaríska Alríkislögreglan hefur birt myndband af íkveikjunni. FBI

Bandaríska Alríkislögreglan leitar óþekkts einstaklings sem er grunaður um að kveikja í tveimur kjörkössum, annars vegar í Vancouver í Washington-ríki og hins vegar Portland í Oregon-ríki. Þess má geta að borgirnar tvær eru mjög skammt frá hvorri annarri.

Alríkislögreglan, FBI býður allt að 25 þúsund dollara handa þeim sem geta veitt upplýsingar sem muni leiða til handtöku þess sem ber ábyrgð á verknaðinum.

Í Bandaríkjunum er utankjörstaðakosning mjög algeng. Því eru kjörkassar gjarnan staðsettir við opinberar byggingar.

Í myndbandi sem Alríkislögreglan birtir á YouTube má sjá þegar óprúttinn aðili, kemur akandi að kjörkassa, og setur einhverskonar íkvekiútbúnað í hann. Ökumaðurinn fer síðan af vettvangi. Í kjölfarið leggur reyk af kassanum og síðan á sér stað sprenging.

Atvikin tvö sem eru til skoðunar áttu sér stað í október, nokkru fyrir sjálfan kjördaginn vestanhafs sem var 5. nóvember. Fyrri sprengingin var þann 8. október og sú seinni var 28. Sama mánaðar.

Alríkislögreglan segir manninn hafa verið að aka Volvo S-60 af 2003 eða 2004 árgerð. Sá grunaði er talinn vera hvítur karlmaður á fertugsaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×