Trump deildi níu daga gamalli færslu frá íhaldssömum aðgerðasinna á TruthSocial, hans eigin samfélagsmiðli, í morgun. Aðgerðasinninn, sem heitir Tom Fitton, sagðist þar hafa heyrt fregnir af því að Trump ætlaði sér að lýsa yfir neyðarástandi og binda enda á „innrás Bidens“ með umfangsmiklum brottvísunum og nota herinn til þessa.
„Satt!!!“ skrifaði Trump.

Í kosningabaráttunni talaði Trump ítrekað um að vísa öllum þeim sem eru í Bandaríkjunum ólöglega úr landi og hefur hann einnig ítrekað stungið upp á því að nota herinn til verksins. Þá hefur hann heitið því að einbeita sér fyrst að farand- og flóttafólki sem hefur komist í kast við lögin.
Eins og fram kemur í frétt Forbes áætla starfsmenn heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna að um ellefu milljónir manna haldi þar til ólöglega.
Þá stefnir Trump einnig að því að loka á aðgang fólks frá tilteknum löndum að Bandaríkjunum, stöðva fjármögnun til svokallaðra „skjólborga“ og meina farand- og flóttafólki að vera í Bandaríkjunum á meðan mál þeirra eru tekin fyrir.
Ráðgjafar Trumps, eins og Stephen Miller, verðandi aðstoðarstarfsmannastjóri hans, hafa lagt til að mögulega verði reistar stórar búðir þar sem hýsa á fólk sem safnað verður saman, áður en það verður flutt úr landi.
Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Trump að hann ætlaði að gera Tom Homan, fyrrverandi yfirmann innflytjenda- og tolleftirlits Bandaríkjanna (ICE), að svokölluðum „landamærakeisara“ sínum.
Sem yfirmaður ICE stóð Homan meðal annars fyrir aðskilnaði barna frá foreldrum sínum.
Á ársfundi landsnefndar Repúblikanaflokksins í sumar sagði Homan að hann hefði varið 34 árum í að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi og að hann hefði skýr skilaboð til þeirra milljóna sem Joe Biden átti að hafa hleypt inn í landið.
„Þið ættuð að byrja að pakka strax. Svo sannarlega. Því þið eruð á leiðinni heim.“