Youtube síða Ronaldo er nú með meira en 67 milljónir fylgjenda. Það er magnað afrek fyrir síðu sem var stofnuð á árinu 2024.
Í nýjasta myndbandinu vildi spyrillinn frá að vita eitthvað um næsta viðmælanda Ronaldo á Youtube síðunni og það er óhætt að segja að Ronaldo hafi svarað honum með sprengju.
„Næsti gestur minn á Youtube? Við munum setja Internetið á hliðina,“ sagði Cristiano Ronaldo sposkur á Youtube síðu sinni URCristiano.
Auðvitað fóru margir strax að velta fyrir sér mögulegum viðmælendum en á endanum komast flestir að einni niðurstöðu.
Gæti svo verið að við sjáum þá Ronaldo og Lionel Messi ræða málin á URCristiano síðunni?
Þetta voru tveir langbestu fótboltamenn heims í langan tíma þótt að tími þeirra á toppnum sé nú liðinn.
Þetta eru samt tveir markahæstu leikmenn sögunnar í opinberum leikjum, Cristiano Ronaldo hefur skorað 910 mörk og Lionel Messi er með 850 mörk. Messi þykir fremri hjá sumum en aðrir eru á Ronaldo vagninum.
Báðir eru enn að spila, Messi í Bandaríkjunum en Ronaldo í Sádí Arabíu. Það er þó einvígi þeirra með liðum Barcelona og Real Madrid sem er hápunkturinn á þeirra viðskiptum á fótboltavellinum.
Nú gætum við verið að sjá þessa miklu erkifjendur mögulega ræða málin. Það er ef Ronaldo er ekki bara að stríða heiminum og fái kannski bara son sinn í viðtal.