Enski boltinn

Klopp vildi fá Anthony í stað Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið frábær hjá Liverpool en sömu sögu er ekki hægt að segja um Antony.
Mohamed Salah hefur verið frábær hjá Liverpool en sömu sögu er ekki hægt að segja um Antony. Getty/Stu Forster/James Gill

Leikmaður, sem hefur verið hreinasta hörmung síðan að Manchester United eyddi meira en áttatíu milljónum punda í hann, átti sér aðdáanda í herbúðum erkifjendanna í Liverpool.

Það geta flestir verið sammála um það að ein verstu kaupin í fótboltaheiminum síðustu ár hafi verið kaup United á Brasilíumanninum Antony frá Ajax árið 2022.

Paul Joyce er einn virtasti blaðamaður í Englandi og hann er með sterk tengsl á Liverpool svæðinu. Þess vegna vekur sérstaka athygli ný fullyrðing hans um áhuga Jürgen Klopp á leikmanni United.

„Það kom upp staða í viðræðum Salah við Liverpool fyrir tveimur árum þegar það þótti afar ólíklegt að samningar myndu nást,“ sagði Paul Joyce.

Mo Salah er að renna út á samningi í sumar. Margt bendir til þess að hann fái nýjan samning hjá félaginu en þáverandi knattspyrnustjóri var farinn að horfa í kringum sig þegar allt var að sigla í strand í viðræðunum sumarið 2022.

„Einn af möguleikunum sem Jürgen Klopp var að velta fyrir sér var að fá Antony í stað Salah,“ sagði Joyce.

Antony var þá búinn að eiga að mjög gott tímabil með hollenska liðinu Ajax. Á endanum var það United sem keypti hann og gerði hann að þriðja dýrasta leikmanninum í sögu félagsins.

Það er hins vegar ljóst að Antony hefur ekki fundið sig með United í ensku úrvalsdeildinni. Uppskeran er 5 mörk í 56 leikjum á tveimur og hálfu ári.

Í vetur hefur hann aðeins komið við sögu í tveimur leikjum. Hann mun væntanlega vera seldur í janúar og þá fyrir aðeins brot að kaupverði sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×