Áður en Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra skellti sér upp í gröfuna var skrifað undir verksamnings inn í golfskálanum á Selfoss á milli Vegagerðarinnar, ríkisins og ÞG verks.
Þegar undirskriftunum var lokið var komið að ráðherra. Hann var ekki í vandræðum eða lengi að taka skóflustunguna. Nýja brúin verður um 330 metra löng og 19 metra breið.
„Þetta er bara stórkostlegur dagur í samgöngusögu Íslands Nýja brúin mun auðvitað hafa verulega áhrif á, bæði fækka slysum, minnka tafirnar og gera fólki auðveldara fyrir að ferðast hér um landið og komast hér austur um þeir sem ætla ekki að stoppa á Selfossi,“ segir Sigurður Ingi.

En Sigurður Ingi var búin að lofa nýrri Ölfusárbrú fyrir nokkrum árum en þá gerðist ekkert. Hvað hefur breyst?
„Fréttin er að við erum komin á þennan stað og hún er að hefjast en það er rétt að það hafa verið hindranir og þröskuldar og tafir en allt fer vel að lokum,“ segir ráðherra.
Það verður veggjald yfir nýju brúnna, sem á að vera tilbúin haustið 2028. En hvað mun ferðin kosta?
„Það verður sirka svona kókflaska fyrir þá sem fara oft,“ segir Sigurður Ingi.
„Við hefjumst bara handa strax. Framkvæmdir eru að sjálfum sér komnar af stað í hönnun, hönnun er komin á fullan kraft og núna standa yfir jarðvegsrannsóknir og síðan í kjölfarið fer verkið af stað,“ segir Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verks.

En munu margir fá vinnu við smíði nýju brúarinnar?
„Það verður mjög breytilegt á verktímanum en þegar mest lætur verða það svona um 150 manns,“ segir Þorvaldur.
