Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu þar sem fólk var spurt hverja af leiðtogum flokkanna það telji að væri besti forsætisráðherrann og besti fjármála- og efnahagsráðherrann.
Enn vilja flestir formann Samfylkingar sem leiðtoga næstu ríkisstjórnar
Flestir telja að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar yrði besti forsætisráðherrann eða um 27 prósent svarenda. Það eru aðeins færri en í könnun frá því í október þar sem tæpur þriðjungur taldi hana besta kostinn.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er í öðru sæti með um 21 prósent. Athygli vekur að tvöfalt fleiri en í síðustu könnun telja hana besta forsætisráðherrann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins er í þriðja sæti en fylgi við hann sem forsætisráðherra dalar milli kannanna. Það sama á við formenn ríkisstjórnarflokkanna sem missa allir fylgi við sig milli kannanna sem leiðtoga í næstu ríkisstjórn. Athygli vekur að Sanna Magðalena Mörtudóttir leiðtogi sósíalista kemst nú á blað þar sem tæplega fimm prósent svarenda velja hana sem næsta forsætisráðherra.
Formaður Viðreisnar kominn yfir formann Sjálfstæðisflokksins
Langflestir eða fjórir af hverjum tíu telja Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingar besta fjármála- og efnahagsráðherrann og bætir hún talsvert við sig frá síðustu könnun fyrir tveimur árum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er í öðru sæti og bætir hún einnig talsvert við sig. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er nú í þriðja sæti en hann tapar umtalsverðu fylgi milli kannanna. Nú telja um 14 prósent svarenda hann vera besta kostinn í stól fjármálaráðherra en voru um 24 prósent fyrir tveimur árum.

Formaður Miðflokksins er í fjórða sæti þar sem um einn af hverjum tíu telja hann besta kostinn og tvöfaldar hann fylgi sitt sem fjármála-og efnahagsráðherra milli kannanna. Ríflega fimm prósent telja núverandi fjármálaráðherra henta best í stöðuna.