Framkvæmdastjóri gistiheimilis í partýbænum Vang Vieng og sjö starfsmenn hafa verið handteknir en framkvæmdastjórinn greindi frá því í viðtali við Associated Press að hann hefði boðið um hundrað gestum ókeypis skot af vodka, þeirra á meðal tveimur áströlskum konum sem létust.
Hann sagði hins vegar að þær hefðu verið þær einu á gistiheimilinu sem hefðu veikst.
Stjórnvöld í Ástralíu, Bretlandi og víðar hafa varað ferðamenn við að neyta áfengis í Laos en metanól, sem er lyktar- og bragðlaust, er stundum notað af óprúttnum aðilum til að drýgja áfenga drykki. Það veldur veikindum og getur, eins og í þessum tilvikum, einnig valdið dauða.
Stjórnvöld í Laos hafa heitið því að láta réttlætið fram ganga og vottað aðstandendum látnu samúð sína. Þau hafa hins vegar litlar upplýsingar gefið um stöðu rannsóknar málsins.
Harmleikurinn virðist ekki hafa haft áhrif á næturlífið í Vang Vieng, nema að því leyti að fólk fer varlega og neytir aðeins áfengis sem hægt er að drekka beint af stút, til að mynda bjórs.