„Mesta breytingin núna er að við erum að sjá í staðinn fyrir að hraunflæðið er aðallega að fara í norður og norðaustur er það núna að fara í suðaustur,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Hraunflæðið ógni þó ekki neinum innviðum.
Veðurstofan varð vör um gasmengun í Grindavík í gær og í nótt. Áfram sé spáð norðaustanátt og búist er við áframhaldandi gasmengun í bænum seinnipartinn í dag.
Hættumatið fyrir svæðið verður endurskoðað seinnipartinn í dag en býst Steinunn við litlum sem engum breytingum. Helst gæti eitthvað breyst í hættumatinu varðandi Grindavík en gasmengun hefur verið á svæðinu.
„Það hafa ekki komið eins toppar voru í gærmorgun og í gærnótt en við búumst við því seinna í dag,“ segir Steinunn.