Á föstudaginn var verkfalli kennara frestað eftir að samkomulag náðist á milli þeirra og samninganefnda ríkis og sveitarfélaga um tillögu frá Ríkissáttasemjara. Verkfall hefst á ný 1. febrúar ef ekki verður búið að undirrita nýja kjarasamninga fyrir þann tíma.
Tæpar fimm vikur eru síðan verkfallsaðgerðir kennara hófust og hefur skólastarf legið niðri ótímabundið eða tímabundið í annan tug leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla á þessum tíma.
Misjafnt er eftir skólum hvort kennsla hefjist á ný í dag eða morgun. Þannig verður dagurinn nýttur í endurskipulagningu skólastarfsins í Fjölbrautaskóla Suðurlands en nemendur mæta ekki aftur í skólann fyrr en í fyrramálið.
Á Leikskólinn Drafnarsteinn í Reykjavík var hins vegar nóg að gera í morgun þegar börnin þar mættu aftur í leikskólann. Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir er móðir tæplega þriggja ára stúlku á leikskólanum.
„Hún fór í leikskólann í morgun alsæl og við náttúrulega öll ótrúlega glöð að þetta sé búið í bili. Maður finnur það bara núna hvað þetta hefur haft mikil áhrif á alla síðustu vikurnar og maður er einhvern veginn í spennufalli. Þessi óvissa var náttúrulega mjög mjög óþægileg. Þannig að við erum alsæl.“
Jóhanna á von á sínu öðru barni og á verkfall að hefjast á ný á settum degi hjá henni ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.
„Maður náttúrulega vonar innilega samningsaðilar sitji núna dag og nótt við samningaborðið að reyna að klára þetta áður en að þessi frestun rennur út. Ég trúi ekki öðru en að þetta leysist fyrir lok janúar.“