Lögreglu barst einnig tilkynning um vinnuslys þar sem maður datt úr stiga. Er hann talinn hafa rifbeinsbrotnað og var fluttur á bráðamóttöku til frekari skoðunar.
Verkefnin í umferðinni voru nokkuð fjölbreytt en lögregla var meðal annars kölluð til vegna mannlausrar bifreiðar á miðri akrein í Hafnarfirði. Bíllinn var dreginn á brott.
Þá barst tilkynning um bílveltu. Ökumaðurinn reyndist vera einn í bifreiðinni og var fluttur á bráðamóttöku en ekki er vitað um meiðsli hans.
Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, meðal annars grunaðir um ölvun við akstur. Í póstnúmerinu 203 var tilkynnt um árekstur þar sem ökumaðurinn stakk af en lögregla veit hver hann er og er málið í rannsókn.