„Þetta er tilhlökkunarefni fyrir okkur í Viðreisn að ganga inn í þetta stjórnarstarf,“ sagði Þorgerður. Hún sagði þingflokkinn spenntan fyrir komandi ríkisstjórnarstarfi og að efnahagslegur stöðugleiki yrði helsta áherslumálið.
Sjá einnig: Vaktin - Ný ríkisstjórn kynnt fyrir landanum
„Það verður unnið fyrir heimilin í landinu, fyrirtækin. Það verður aukin verðmætasköpun um leið og við ýtum undir velferð í landinu,“ sagði hún. Ríkisstjórnin þyrfti að sýna vinnusemi og í senn skilning á mismunandi stöðu fólks.
Þorgerður sagðist fullviss um að ríkisstjórnin myndi endast kjörtímabilið.
„Við vitum alveg að hverju við göngum og áttum okkur á því að samhliða sterkum stjórnarsáttmála og góðri stefnuyfirlýsingu að þá þarf liðsheildin líka að vera sterk. Við pössum upp á það.“
Þorgerður staðfesti að Viðreisn fengi fjóra ráðherra í ríkisstjórninni en fregnir hafa borist af því að Samfylkingin muni einnig fá fjóra ráðherra og Flokkur fólksins þrjá.
Þá sagði hún að valið á ráðherrum væri erfitt, því þingflokkurinn væri skipaður mjög öflugu fólki.