Þetta kemur fram í dagbók lögreglu frá klukkan 17 í gærkvöldi til fimm í morgun. Samkvæmt henni gistu fimm fangaklefa og alls voru 45 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu. Lögreglan sinnti einnig sérstöku eftirlit með flugeldasölum í umdæminu.
Í Reykjavík var tilkynnt um þjófnað á vegabréfi og kveikjuláslyklum og er málið til rannsóknar. Þá var manni vísað út af mathöll þar sem hann var til ama og áreitti gesti. Einnig barst lögreglu beiðni um mann sem var til vandræða á ölhúsi en sá var farinn þegar lögregla kom á vettvang.
Lögreglu á lögreglustöð 3, sem nær yfir Kópavog og Breiðholt, barst einnig tilkynning um hóp ungmenna að valda usla í verslunarmiðstöð. Líklega er um Smáralindina þar að ræða. Fram kemur í dagbókinni að lögregla hafi gefið sig á tal við ungmennin og gefið þeim sem vildu endurskinsmerki.
Eitthvað var um að ökumenn væru stöðvaðir vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og bárust nokkrar tilkynningar um umferðarslys. Í eitt skiptið hafi ökumaður ekið á ljósastaur en engin slys voru þó á fólki.