Netanjahú sparkaði Gallant úr ríkisstjórn sinni í nóvember en varnarmálaráðherrann var oft á öndverðum meiði við forsætisráðherrann og harðlínumenn í ríkisstjórninni. Í myndbandsávarpi í gær tilkynnti Gallant að hann ætlaði að segja af sér þingmennsku, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Það er eins á vígvellinum og í almannaþjónustu. Það eru augnablik þar sem maður verður að staldra við, meta stöðuna og velja stefnuna til þess að ná settum markmiðum,“ sagði Gallant.
Gallant, sem er fyrrverandi hershöfðingi úr Ísraelsher, var meðal annars ósammála Netanjahú og félögum um undanþágur frá herskyldu fyrir strangtrúaða gyðinga. Hann vildi ganga lengra í að afnema undanþáguna sem hefur verið við lýði í áratugi í Ísrael.
Netanjahú rak Gallant fyrst í mars 2023 eftir að varnarmálaráðherrann lagðist gegn afar umdeildum áformum ríkisstjórnarinnar um að draga úr áhrifum hæstaréttar landsins. Brottreksturinn varð kveikjan að fjöldamótmælum. Netanjahú sá sér þann kost vænstan að draga brottreksturinn til baka vegna þeirra.
Alþjóðasakamáladómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur báðum mönnum vegna stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu í stríði Ísraelshers gegn Hamas á Gasaströndinni í nóvember. Leiðtogar Hamas eru einnig sakaðir um sömu glæpi.