Eldstöðvakerfið sem kennt er við Ljósufjöll á austanverðu Snæfellsnesi hefur verið að minna á sig síðustu daga. Lengsti óróapúls í kerfinu sem mælst hefur til þessa varð við Grjótaárvatn í Borgarbyggð síðdegis 2. janúar, hann mældist fjörutíu mínútur.
Þá sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudag að útlit væri fyrir að svæðið væri komið í gang. Um þúsund ár eru liðin frá síðasta eldgosi í kerfinu.

Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri í Borgarbyggð segir íbúum í sveitarfélaginu tíðrætt um jarðhræringarnar þessa dagana.
„[Fólk hefur] tekið eftir jarðhræringum, fundið fyrir þeim. Þetta nær aðallega til svæðis sem er í norðvestanverðri Borgarbyggð.“
Sums staðar ekkert samband
Stefán segir nauðsynlegt að umræða og upplýsingaflæði í kringum jarðhræringar verði gott.
„Og styrkist enn frekar, tala nú ekki um ef þróunin heldur áfram í þá veruna eins og hún hefur verið. Mestu máli skiptir fyrir okkur og íbúa að tryggt sé að öll vöktun sé góð, hún verði styrkt á þessu svæði. Eðlilega hefur fókus undanfarna áratugi ekki verið á þetta svæði en mér finnst ljóst að það þurfi að styrkja vöktunina og byggja frekar upp innviði,“ segir Stefán.
Hann bendir á í þessu samhengi að á svæðinu sé íbúabyggð í dreifbýli en einnig vaxandi ferðaþjónusta, uppbygging sumarhúsabyggða og útivist stunduð víða.
„Þannig að það er mikil umferð um þetta svæði og á svæði þar sem ekki er til dæmis fjarskiptasamband á öllum stundum.“
Nýjar myndir veita innsýn
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti í morgun nýjar þrívíddarmyndir af skjálftavirkni við Grjótárvatn. Bæring Gunnar Steinþórsson vann myndirnar, sem veita innsýn í dýpt og dreifingu jarðskjálfta á svæðinu síðasta árið.
Myndirnar sýna að megnið af skjálftunum er á miklu dýpi, á bilinu 15-20 km og allra dýpstu skjálftarnir eru á 24-25 km dýpi. Einnig sést skjálftasvæði sem teygir sig upp mun nær yfirborði, að því er segir í færslu hópsins á Facebook. Sú virkni virðist raðast eftir sprungufleti - og þrýstingur að neðan gæti því verið að ýta við sprunguhreyfingum nær yfirborði, beint undir Grjótárvatni.