Erlent

Sagður hafa þegið töskur fullar fjár frá Gaddafi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gaddafi og Sarkozy á ráðstefnu Evrópusambandsins og Afríkuríkja í Portúgal árið 2007.
Gaddafi og Sarkozy á ráðstefnu Evrópusambandsins og Afríkuríkja í Portúgal árið 2007. Getty/Gamma-Rapho

Réttarhöld hefjast í dag yfir Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta Frakklands, en hann er sakaður um að hafa þegið milljónir evra í ólögleg kosningaframlög frá ríkisstjórn Muammar Gaddafi, þáverandi leiðtoga Líbíu, árið 2007.

Sarkozy er einn af tólf sem hafa verið ákærðir vegna málsins en þrír þeirra eru fyrrverandi ráðherrar. 

Rannsókn málsins stóð yfir í tíu ár og eru ákærðu sakaðir um að hafa komið að samsæri þar sem ferðatöskur fullar af reiðufé voru fluttar frá Líbíu til Parísar til að fjármagna kosningabaráttu Sarkozy, sem sigraði í forstakosningunum árið 2007.

Ákærðu eru meðal annars sakaðir um að hafa þegið fjármunina gegn greiðvikni gagnvart stjórnvöldum í Líbíu. Þau eru til að mynda sögð hafa óskað eftir því að ráðamenn leituðu leiða til að fá alþjóðlegri handtökuskipun gegn Abdullah al-Senussi aflétt en Senussi var dæmdur í fangelsi í Frakklandi árið 1999 fyrir aðild sína að sprengjuárás í farþegavél franska flugfélagsins UTA yfir Níger árið 1989.

170 létust í árásinni.

Lögmaður fimmtán aðstandenda látnu segir að ef ásakanirnar gegn Sarkozy og félögum reynist réttar hafi fjármunirnir sem aðstoðuðu forstann fyrrverandi við að ná kosningu verið ataðir blóði fórnarlamba árásarinnar.

Sarkozy, sem var forseti frá 2007 til 2012, hefur neitað sök. Gaddafi var myrtur af uppreisnarmönnum árið 2011.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×