Gróðureldar af þessu tagi þykja sjaldgæfir í Kaliforníu í janúar og er þetta talið í þriðja sinn sem eldar af þessari stærðargráðu kvikna á þessu tímabili.
Þegar mest hefur verið hafa vindhviður á svæðinu náð í 44 metra á sekúndu, samkvæmt fréttum LA Times og hefur það leitt til þess að eldarnir hafa stækkað mjög.
Að minnsta kosti tveir eru látnir.
Mörg hús eru sögð hafa orðið eldunum að bráð og hafa tugir þúsunda þurft að flýja heimili sín og margir fótgangandi. Skólum hefur verið lokað og AP fréttaveitan segir rúmlega 180 þúsund manns án rafmagns vegna eldanna.
Einn eldurinn er sagður fara hratt um hverfi sem kallast Palisades en hljómsveitin Beach Boys gerði það frægt á árum áður. Þaðan hafa frægt fólk eins og Mark Hammill, Mandy Moore og James Woods þurft að flýja heimili sín.
This is what’s left of the Pacific Palisades. The mall survived. Most everything else is gone. Homes, apartment complexes… businesses. pic.twitter.com/Vfz721V48J
— Jonathan Vigliotti 🐋 (@JonVigliotti) January 8, 2025
Samkvæmt gögnum frá CalFire, heldur utan um skógarelda í Kaliforníu, eru eldarnir fjórir stjórnlausir. Yfirleitt má sjá gögn um það hve stórum hluta eldanna slökkviliðsmenn hafa náð tökum á en að svo stöddu eru þetta hlutfall núll prósent þegar kemur að öllum eldunum.
Eftir að fréttin var birt var tölfræðinni varðandi fimmta eldinn breytt. Slökkviliðsmenn áttu að hafa náð fullum tökum á honum en þeir eru nú sagðir hafa misst stjórn á honum.
Á vef CalFire má einnig sjá kort af eldunum.

Þurrkar, hitabylgjur og veðurfarsbreytingar af mannavöldum hafa gert gróðurelda erfiðari viðeignar í Bandaríkjunum og víðar. Vísindamenn segja að vesturhluti Bandaríkjanna hafi orðið hlýrri og þurrari á síðustu áratugum og það geri öfgar í veðurfari algengari og gróðurelda stærri og umfangsmeiri.
Eldtímabilið svokallaða í Kaliforínu hefur orðið sífellt lengra á undanförnum árum.
Fréttin hefur verið uppfærð.