Á vef Veðurstofunnar segir að þegar líður á daginn færist hæðin suðaustur af landinu á sama tíma og lægð nálgast úr suðvestri. Því mun bæta smám saman í vind á sunnan- og vestanverðu landinu, suðaustan stinningsgola eða kaldi og dálítil él í þeim landshlutum.
„Með suðlægu áttunum hlýnar og eftir frosthörkur morgunsins verður hiti í kringum frostmark í kvöld.
Áframhaldandi suðlægar áttir með úrkomu sunnan- og vestantil en að mestu þurrt á norðaustanverðu landinu. Hlýnar enn frekar og hiti 1 til 6 stig annað kvöld, en áfram í kringum frostmark á Austurlandi.
Um helgina er útlit fyrir að haldi áfram að hlýna með rigningu í öllum landshlutum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Sunnan og suðaustan 5-13 m/s, hvassast við suðvesturströndina. Dálítil él eða skúrir, en þurrt á Austurlandi. Frost 1 til 10 stig, en hiti um og yfir frostmarki suðvestan- og vestanlands.
Á laugardag: Sunnan 8-13 m/s, rigning eða slydda með köflum og hiti 0 til 6 stig, en úrkomulítið og hiti um frostmark austantil.
Á sunnudag: Ákveðin suðlæg átt og rigning, einkum sunnan- og vestanlands. Hægari vindur og dregur úr vætu eftir hádegi. Hiti 2 til 9 stig, en kólnar um kvöldið.
Á mánudag: Suðvestanátt og rigning eða skúrir, en styttir upp austanlands síðdegis. Milt í veðri.
Á þriðjudag: Suðlæg átt og rigning, en sums staðar slydda fyrir norðan. Hiti 0 til 10 stig, mildast syðst.
Á miðvikudag: Útlit fyrir ákveðna suðvestlæga átt, skúrir og milt veður, en frost og él norðantil.