Í HR stofunni fór Peter yfir spálíkan sem hann hefur gert fyrir HM. Hann gerði einnig spálíkön fyrir HM 2023 og EM 2024. Fyrir HM 2023 spáði hann því að Íslendingar myndu enda í 12.-14. sæti og svo fór að þeir enduðu í 12. sæti. Fyrir EM í fyrra spáði Peter því að líklegast yrði að Ísland endaði í 7.-12. sæti. Tíunda sætið varð niðurstaðan.
Eftir að hafa keyrt spálíkan sitt fyrir HM í ár 100.000 sinnum er niðurstaðan Peters sú að 1,7% líkur séu á að Ísland verði heimsmeistari.
Telur 40% líkur á að Ísland komist í 8-liða úrslit
Algengasta lokastaða Íslands reyndist 8. sæti en meðalniðurstaða Íslands var 10. sæti. Dreifingin var þó býsna mikil og það var aðeins í 7,5% tilvika sem að Ísland endaði í 8. sæti.
Samkvæmt spálíkani Peters eru tæplega 40% líkur á því að Ísland komist að minnsta kosti í gegnum milliriðlakeppnina og í 8-liða úrslit. Þessar líkur hækka í 63,8% ef að Ísland vinnur G-riðil en þá er ljóst að liðið þarf að leggja Slóvena að velli í leiknum mikilvæga á mánudagskvöld. Samkvæmt spá Peters er líklegra að Slóvenía og Egyptaland komist í 8-liða úrslitin, á kostnað Íslands og Króatíu.
Það eru 14,2% líkur á að Ísland komist í undanúrslit, í fyrsta sinn í sögu HM, og 5,3% líkur á að liðið komist í úrslitaleik mótsins. Eins og fyrr segir eru svo 1,7% líkur á að liðið fari alla leið en Frakkland er líklegast til að vinna mótið og tókst það í 23% tilvika í líkani Peters. Danmörk er skammt undan, eftir að hafa unnið þrjú síðustu heimsmeistaramót, en það bitnar á Dönum að vera í erfiðari helmingi mótsins.
HR stofan hófst klukkan 12:30 og mátti sjá beina útsendingu frá henni hér fyrir neðan.
Ísland mætir Grænhöfðaeyjum í G-riðli heimsmeistaramótsins í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Fjallað verður ítarlega um leikinn í máli og myndum á Vísi í kvöld.