Varaformaðurinn segir Íslendinga og heimsbyggðina upplifa viðsjárverða tíma og flokkurinn verði gera upp við sig hvers konar framtíð hann vilji beita sér fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn þurfi meðal annars að sýna meiri hlýju í málflutningi sínum og höfða til þeirra sem sjái tækifæri til framfara á öllum sviðum samfélagsins.
„Í rauninni tók ég ákvörðun fyrir meira en tveimur árum örugglega, að ég myndi bjóða fram krafta mína þegar Bjarni Benediktsson myndi ákveða að hætta sem formaður. Ég hef ekki tekið nýja ákvörðun síðan þá,“ segir Þórdís Kolbrún meðal annars í Samtalinu.
Það væri hins vegar stór ákvörðun að fara í formannsframboð á þessum tímapunkti eftir allt sem á undan væri gengið.

„Ég er búin að vera varaformaður í sjö ár og það er auðvitað langur tími. En það var líka auðvitað yfirlýsing um að ég treysti mér í forystu Sjálfstæðisflokksins.“
Það væri hins vegar allt annað að leiða flokkinn en vera varaformaður.
Þannig að það yrði stefnubreyting í raun og veru hjá þér persónulega ef þú byðir ekki fram krafta þína í þetta embætti?
„Það yrði það. En ég segi líka, á þessum sjö árum hefur mjög margt breyst og bara á undanförnum tveimur árum hefur mjög margt breyst,“ segir Þórdís Kolbrún.
Í Samtalinu ræðir hún meðal annars breytingar sem hún segir nauðsynlegar á ásýnd Sjálfstæðisflokksins og áherslum hans til framtíðar. Flokkurinn þurfi að breikka faðminn en um leið skerpa á klassískum gildum sínum um vestræna samvinnu, alþjóðaviðskipti og aðhald við ráðstöfun opinberra fjármuna. Samtalið er í opinni dagskrá á Stöð 2 strax að loknum kvöldfréttum og Íslandi í dag.