Innlent

Síðasti dagur Dags í borgar­ráði í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dagur var kjörinn sem aðalmaður í borgarráð í fyrsta sinn árið 2003. Nú kveður hann borgarmálin og snýr sér að landsmálunum.
Dagur var kjörinn sem aðalmaður í borgarráð í fyrsta sinn árið 2003. Nú kveður hann borgarmálin og snýr sér að landsmálunum. Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson, nýr þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, sat sinn síðasta borgarráðsfund í morgun. Hann hefur starfað á vettvangi ráðsins frá árinu 2003, og haft þar marga hatta. 

Í Facebook-færslu segir Dagur að hann hafi á afmælisdaginn sinn árið 2003, þann 19. júní, fyrst verið kjörinn inn í borgarráð sem aðalmaður. Þá var dagur 31 árs, en hann fagnar 53 ára afmæli á þessu ári. 

„Þetta reyndist frábært tækifæri því í gegnum fundi borgarráðs er hægt að öðlast yfirsýn og innsýn í öll málefni borgarinnar og tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun hennar og allar lykilákvarðanir. Í borgarráði hef ég síðan setið sem aðalmaður, formaður eða borgarstjóri óslitið allar götur síðan. Þar til í dag. Í morgun sat ég sum sé minn síðasta borgarráðsfund,“ skrifar Dagur. Með færslunni birtir hann tvær myndir, aðra frá því hann hóf störf á vettvangi borgarráðs og aðra töluvert nýlegri.

Hann segir ekki þurfa að hafa mörg orð um að borgin hafi á þessum tíma tekið algerum stakkaskiptum og eflst til muna. Um það hafi hann raunar skrifað bók, Nýja Reykjavík. 

„Ég vil hins vegar þakka öllu mína frábæra samstarfsfólki í borgarráði gegnum árin kærlega fyrir einstakt samstarf. Og þar geri ég ekki greinarmun á borgarfulltrúum, hinu einstaka starfsfólki borgarinnar og borgarráðs eða ótölulegum fjölda samstarfsaðila.,“ skrifar Dagur sem segist stíga stoltur frá borði, og þakka fyrir sig.

Dagur segir þá að á þriðjudag muni borgarstjórn taka fyrir lausnarbeiðni hans vegna fyrirhugaðrar þingsetu. 


Tengdar fréttir

Bjóst ekki við greiðslum frá Alþingi

Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs ætlar að biðjast lausnar frá borginni í næstu viku. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að hann og aðrir borgarfulltrúar sem voru kjörnir á Alþingi í síðustu kosningum eigi að vera búin að því. Óeðlilegt sé að fá bæði laun frá Alþingi og borginni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×