Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að fram að 4. febrúar verði undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kosninga gefið rými til þess að vinna sína vinnu. Koma verði í ljós hvað komi út úr þeirri vinnu en vonast sé til þess að unnt verði að setja þing 4. febrúar.
Kristrún segir það ekki sitt að segja til um á þessum tímapunkti hvort líklegt sé að talið verði á ný. Nefndin þurfi að fara yfir ýmis gögn og hafi víðtækar heimildir. „Nú gefum við þessu bara tíma, þessi dagsetning á þingsetningu er sett með fyrirvara um að það verði búið að komast að niðurstöðu.“
Ekki gott fyrir lýðræðið
Þá segir Kristrún það vera áhyggjuefni að einhver fjöldi atkvæða virðist hafa fallið milli skips og bryggju.
„Það er óheppilegt og þetta er ekki gott fyrir lýðræðið í landinu, að fólk þurfi að hafa áhyggjur af því að þeirra atkvæði komist til skila. Auðvitað er það þannig að ef þú kýst utan kjörfundar berðu ábyrgð á því að koma atkvæðinu þínu til skila en fólk er samt að greiða atkvæði undir ákveðnum kringumstæðum, undir ákveðnu fyrirkomulagi, þar sem það ætti að skila sér. Landskjörstjórn hefur sagt að það þurfi að fara betur yfir og endurskoða fyrirkomulag utankjörfundar. Þetta er eitthvað sem ég tek undir og ég held að Alþingi ætti að beina því í réttan farveg. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli upp á framtíðinni.“
Viðtal við Kristrúnu má sjá að neðan.