24 ráðherrar eru sagðir hafa samþykkt vopnahléið en átta munu hafa greitt atkvæði gegn því.
Ríkisstjórnarfundurinn stóð yfir í rúmar sex klukkustundir og í kjölfarið sendi Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, út stutta yfirlýsingu um að vopnahlé hefði verið samþykkt og að það tæki gildi á sunnudaginn.
Tekur gildi í fyrramálið
Nánar tiltekið mun vopnahléið taka gildi snemma á sunnudagsmorgun og er búist við því að þremur konum verði sleppt úr haldi Hamas seinna á morgun.
Talið er að um hundrað manns séu enn í haldi Hamas, af þeim 250 sem teknir voru í gíslingu þann 7. október 2023, en að þriðjungur þeirra sé dáinn, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Fram hefur komið að samkvæmt þessu þriggja fasa samkomulagi myndu Hamas-liðar sleppa fjölda gísla í skiptum fyrir það að Ísraelar sleppi Palestínumönnum úr fangelsi. Í fyrsta fasanum eiga Hamas-liðar að sleppa 33 gíslum yfir sex vikna tímabil og Ísraelar eiga að sleppa fjölmörgum Palestínumönnum úr fangelsum og þar á meðal dæmda hryðjuverkamenn.
Ísraelskir hermenn eiga einnig að hörfa frá byggðum Gasastrandarinnar á þessu tímabili.
Sjá einnig: Ríkisstjórnin fundar um vopnahlé
Á meðan á fyrsta fasanum stendur eiga að fara fram frekari viðræður um að sleppa þeim 65 gíslum sem enn eru í haldi Hamas-liða en að minnsta kosti 36 þeirra eru taldir látnir.
Í frétt Kan í Ísrael segir að Bezalel Smotrich, leiðtogi Trúarlegs síonístaflokks Ísrael, hafi gert það að skilyrði fyrir því að flokkur hans sliti ekki stjórnarsamstarfinu að stríðsrekstri muni halda áfram að fyrsta fasanum loknum og að Ísraelar myndu halda stjórn á flæði neyðaraðstoðar til Gasa.
Netanjahú er sagður hafa samþykkt þessi skilyrði.
Trump sagður hafa heitið fullum stuðning
Í frétt Times of Israel er vitnað í aðra ísraelska fjölmiðla um að Netanjahú hafi heitið því á ríkisstjórnarfundinum að Donald Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á mánudaginn, hafi heitið Ísrael fullum stuðningi verði brotið gegn skilmálum vopnahlésins.
Því hefur einnig verið haldið fram að Netanjahú hafi tilkynnt að Trump myndi hefja aftur vopnasendingar til Ísrael sem Biden stöðvaði. Það sé gífurlega mikilvægt því ef samkomulagið nái ekki á annan fasa muni Ísraelar hafa nægt vopn á höndum.
Kannanir sýna að Ísraelar eru flestir hlynnti því að fylgja samkomulaginu eftir að öðrum fasa en margir efast um að það muni ganga eftir.
Frá því erindrekar Ísrael og pólitískir leiðtogar Hamas samþykktu vopnahléstillögur hafa Ísraelar gert umfangsmiklar loftárásir á Gasaströndina.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem stýrt er af Hamas, segja að minnsta kosti 46 þúsund manns liggja í valnum eftir árásir Ísraela undanfarna fimmtán mánuði. Aðstæður þar eru sagðar verulega slæmar en eftir að vopnahléið tekur gildi er búist við því að flæði neyðaraðstoðar inná Gasaströndina muni aukast til muna.