Vísir ræddi við þá Janus Daða Smárason og Elliða Snæ Viðarsson í dag sem höfðu báðir orð á því að tilbreytingin hafi verið kærkomin.
„Maturinn er bara eins og á öllum stórmótum. Það er bara þurr kjúli og pasta sem maður er svo sem orðinn vanur. Við fengum að að gæða okkur á McDonald‘s eftir leik í gær. Það var fín tilbreyting,“ segir Elliði.
„Það var frábært. Við reyndar þurftum að bíða svolítið lengi eftir honum. En það var hverrar mínútu virði,“ segir Janus. Strákarnir hafi getað gætt sér á nokkrum borgurum.
„Það var ekkert verið að flækja þetta. Þetta var Big Mac á alla og þrír, fjórir ostborgarar með. Þá bara sváfum við þokkalega.“
Strákarnir æfa svo í Zagreb síðar í dag og undirbúa sig fyrir strembið verkefni á morgun gegn heimamönnum í króatíska landsliðinu, sem leika undir stjórn fyrrum landsliðsfyrirliða Íslands, Dags Sigurðssonar.
Vísir mun fylgja strákunum áfram vel eftir fram að leik sem fer fram klukkan 19:30 annað kvöld.