Áður en að leikur Íslands og Króatíu hófst þá mættust Egyptaland og Slóvenía í höllinni í Zagreb í gær. Ef Egyptar hefðu ekki unnið þann leik þá hefði Íslandi dugað sigur í leiknum við Argentínu á morgun til að tryggja sig inn í 8-liða úrslit, burtséð frá öllum öðrum úrslitum.
En Egyptar unnu, með einu marki. Slóvenar fengu um 45 sekúndur í lokasókn sína, og skoruðu í blálokin, en dómarar leiksins komust að þeirri niðurstöðu að um leiktöf hefði verið að ræða. Markið má sjá hér að neðan.
❓ Slóvenar voru grátlega nálægt því að jafna metin. Það hefði breytt öllu fyrir stöðu Íslands í kvöld. Sjáðu atvikið í lokasókn þeirra gegn Egyptum.
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) January 24, 2025
Dómararnir dæmdu leiktöf þar sem Slóvenía tók of margar sendingar, við litla kátínu Slóvena pic.twitter.com/wgVkBb7HR1
Dómari lyfti upp hendi þegar 11 sekúndur voru eftir, og Slóvenar í bullandi sókn. Þeir áttu svo fimm sendingar áður en þeir skoruðu, en senda má að hámarki fjórar sendingar áður en leiktöf er dæmd. Reglunum var breytt árið 2022 en áður mátti senda að hámarki sex sendingar fyrir leiktöf, sem hefði dugað Slóvenum.
Norsku dómararnir Lars Jorum og Havard Kleven dæmdu leikinn og ákváðu að jöfnunarmark Miha Zarabec fengi ekki að standa.
Markið hefði ekki aðeins verið óhemju dýrmætt fyrir Ísland heldur einnig gefið Slóvenum fræðilega möguleika á að komast í 8-liða úrslit.
Allir í höllinni voru forviða yfir því að dæmd skyldi leiktöf, samkvæmt frétt slóvenska miðilsins Ekipa24, því menn töldu Norðmennina hafa lyft upp hendi of snemma.
„Þeir dæmdu leiktöf en ég veit ekki af hverju hann var að lyfta hendinni. Við byrjuðum sóknina 40 sekúndum fyrir leikslok. Dómararnir lyftu hendinni 15 sekúndum fyrir leikslok. Þeir höfðu ekki lyft hendi í sókn Egypta áður. Það var fullt af svona ákvörðunum í leiknum. Þetta er algjör synd,“ sagði Jure Dolenec, leikmaður Slóveníu.
Staða Íslands er núna þannig að liðið þarf að vinna Argentínu á morgun og treysta á að Grænhöfðaeyjar nái í stig gegn Egyptalandi, eða að Slóvenía nái í stig gegn Króatíu, til að komast í 8-liða úrslitin. Ef Ísland, Egyptaland og Króatía vinna öll þá enda þau jöfn í 1.-3. sæti en Ísland neðst vegna innbyrðis úrslita.