Handbolti

Stjörnu­menn gerðu vel úti í Rúmeníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Logi Einarsson tryggði Stjörnumönnum jafntefli úti í Rúmeníu í dag.
Ísak Logi Einarsson tryggði Stjörnumönnum jafntefli úti í Rúmeníu í dag. Vísir/Anton Brink

Stjörnumenn eru í ágætri stöðu í umspili Evrópudeildarinnar í handbolta eftir jafntefli á útivelli í dag.

Stjarnan gerði 26-26 jafntefli við Minaur Baia Mare frá Rúmeníu eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik, 15-14.

Ísak Logi Einarsson skoraði jöfnunarmark Garðbæinga undir lok leiksins.

Stjörnumenn voru þarna að spila sinn fyrsta Evrópuleik í átján ár. Sem silfurlið í bikarkeppninni á síðasta tímabili þá átti Stjarnan rétt á þátttöku í Evrópudeildinni, þeirri sömu og FH og Valur voru síðast með í fyrravetur.

Þetta var bara fyrri leikur liðanna í baráttunni um sæti í Evrópudeildinni í vetur. Seinni leikurinn fer fram í Garðabænum um næstu helgi. Þá kemur í ljóst hvort Stjarnan verður í pottinum þegar dregið verður í riðla.

Gauti Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í dag og þeir Jóhannes Björgvin og Hans Jörgen Ólafsson voru með fjögur mörk. Ísak Logi, Starri Friðriksson og Benedikt Marinó Herdísarson skoruðu allir þrjú mörk.

Minaur Baia Mare fór alla leið í átta liða úrslit EHF bikarsins í fyrra en datt þar út á móti Alkaloid frá Norður-Makedóníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×