Innlent

Laugin muni ekki opna fyrr en í fyrsta lagi seinni­part mánu­dags

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Garðabæjarpotturinn svokallaði í Vesturbæjarlaug er oft þéttsetinn.
Garðabæjarpotturinn svokallaði í Vesturbæjarlaug er oft þéttsetinn. Reykjavíkurborg

Vesturbæjarlaug var áfram lokuð í dag og verður ekki opnuð fyrr en í fyrsta lagi seinnipart mánudags. Lauginni var lokað tímabundið í gær vegna netbilunar sem gerði það að verkum að öryggisbúnaður virkar ekki. 

Fréttastofa Vísis fjallaði um bilunina í gær. Þar kom fram að á Facebook-síðu Vesturbæjarlaugar væri færsla um bilunina og að ekki væri vitað hvenær laugin yrði opnuð á ný.

„Því miður þurfum við að loka lauginni tímabundið! Ekki er hægt að tryggja öryggi gesta þar sem öryggismyndavélar og annar búnaður virkar ekki vegna netbilunar,“ sagði í færslunni.

Færslan var síðan uppfærð síðdegis í dag og þá kom fram að netbilunin tengdist leiðara sem fór í sundur „úti í götu“ og að verið væri að vinna að viðgerð og reynt að tryggja annað net fyrir búnað laugarinnar.

Forsvarsmenn laugarinnar segjast í færslunni ekki sjá sér fært að opna „fyrr en í fyrsta lagi seinnipartinn á morgun, mánudag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×