Þetta sagði Pete Hegseth, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í viðtali við Fox News og í myndbandi sem varnarmálaráðuneytið birti á X. AP fréttaveitan hefur eftir aðilum innan hersins að ekki sé vitað með vissu hvort flugmennirnir hafi verið með nætursjónaukana á sér þegar slysið varð.
Þar segir hann einnig að búið sé að stöðva flug frá umræddri herstöð í að minnsta kosti tvo sólarhringa á meðan rannsakað er hvernig slysið varð. Hvort þyrlunni hafi verið flogið í réttri hæð og á réttri leið.
Update on Guantanamo Bay Operations and @SecDef Hegseth Addresses Tragic Mishap Involving US Army Helicopter pic.twitter.com/80J5djB4oP
— Department of Defense 🇺🇸 (@DeptofDefense) January 30, 2025
Hvorki Hegseth né talsmenn ráðuneytisins hafa reynt að útskýra af hverju áhöfn þyrlunnar var við æfingar að kvöldi til við svo stóran flugvöll en það ku vera algengt.
Þyrlan var af gerðinni UH-60 Black Hawk og var henni flogið frá Fort Belvoir herstöðinni í Virginíu. Þrír menn voru um borð og eru þeir allir látnir.
Farþegaþotan var af gerðinni Bombardier CRJ700. Ekki er talið að einhver af þeim 64 sem voru um borð í þotunni hafi lifað af. Flugvélin fannst í þremur hlutum í ánni og er sömuleiðis búið að finna brak úr þyrlunni.
Að minnsta kosti 28 lík hafa fundist.

Heyra má á upptökum flugumferðarstjóra að innan við þrjátíu sekúndum áður en slysið varð spurði flugumferðarstjóri hvort flugmenn þyrlu sæju flugvélina í aðflugi.
Skömmu síðar sagði hann áhöfninni bíða eftir þotunni en ekkert svar barst. Nokkrum sekúndum síðar varð slysið.