„Við náðum aldrei neinu flugi í okkar leik og Stjörnumenn voru einfaldlega miklu betri í þessum leik. Við vorum slegnir utan undir strax í upphafi leiks og náðum okkur aldrei almennilega á strik. Það veldur mér áhyggjum hversu mikið betri þeir vorum á öllum sviðum í þessum leik,“ sagði Jóhann Þór, sýnilega hundfúll.
„Við erum búnir að vera í lægð síðan um miðjan nóvember og við verðum að finna lausnir á því hvernig við náum að bæta leik liðsins. Það vantar alla orku og gleði í liðið og frammistaðan er eftir því. Við verðum að snúa bökum saman og snúa þessu í rétta átt,“ sagði Jóhann Þór enn fremur.
„Það er eins og formaðurinn standi í hurðinni og dragði leikmenn og mig sjálfan inn á parketið til þess að spila þessa leiki. Það er engin gleði og það vantar allan vilja til þess að gera það sem þarf til þess að landa sigrum í höfn,“ sagði hann svekktur út í sjálfan sig og lærisveina sína.
Grindvíkingar hafa ákveðið að skipta um Bandaríkjamann en Devon Thomas hefur verið leystur undan samningi. Jeremy Pargo sem á að leysa hann af hólmi og lappa upp á leik Grindavíkurliðsins er ekki kominn til landsins en Jóhann Þór segir að fjarvera hans geta ekki útskýrt muninn á liðunum í kvöld.
„Við getum fengið til liðs við okkur 58 leikmenn en ef að andinn er ekki meiri í þeim leikmönnum sem eru til staðar inni á vellinum þá mun þetta ekkert breytast og við höldum bara áfram í sama horfinu. Nú er ekkert sem heitir lengur og við þurfum að grafa djúpt eftir þeirri orku og gleði sem til þarf til þess að vinna körfuboltaleiki,“ sagði Jóhann Þór vonsvikinn.