Fótbolti

Salah orðinn sá sjö­tti markahæsti í sögunni: „Erum á réttri leið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah heldur áfram að raða inn fyrir Liverpool.
Mohamed Salah heldur áfram að raða inn fyrir Liverpool. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Mohamed Salah varð í gær sjötti markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi er hann skoraði bæði mörk Liverpool í 2-0 sigri liðsins gegn Bournemouth.

Salah hefur veri sjóðandi heitur á tímabilinu og er kominn með 21 mark í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur einnig verið iðinn við það að leggja upp fyrir liðsfélaga sína og er kominn með 13 stoðsendingar.

Með sigrinum náði Liverpool níu stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Arsenal og Nottingham Forest sitja í öðru og þriðja sæti deildarinnar, en Arsenal mætir Manchester City í dag og getur minnkað bilið aftur niður í sex stig.

Þrátt fyrir að vera allt í öllu í titilbaráttunni með Liverpool er framtíð egypska sóknarmannsins þó í lausu lofti. Samningur hans við félagið rennur út í sumar og samningsviðræður hafa ekki borið árangur, enn sem komið er.

Salah virðist þó vera með hausinn á réttum stað og einbeitir sér að markmiðum liðsins.

„Við þurfum að halda okkur á jörðinni og taka bara einn leik í einu,“ sagði Salah í viðtali eftir leik gærdagsins.

„Það er gott að skora mörk og okkur líður vel þegar liðið er að vinna.“

„Mitt markmið er að vinna ensku úrvalsdeildina með liðinu og við erum á réttri leið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×