Innlent

Hættir sem for­maður Siðmenntar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Inga Auðbjörg hefur verið athafnastjóri hjá Siðmennt í mörg ár og formaður félagsins frá 2019.
Inga Auðbjörg hefur verið athafnastjóri hjá Siðmennt í mörg ár og formaður félagsins frá 2019. Karítas Guðjóns

Inga Auðbjörg Straumland hefur tilkynnt að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Siðmenntar. Hún hefur gegnt formennsku í félaginu síðustu sex ár.

Inga greinir frá þessu í Facebook-færslu. Þar segir hún að eftir sléttan mánuð verði ýmislegt öðruvísi í lífi hennar.

„Í fyrsta lagi verð ég nýskriðin yfir 39 ára afmælisdaginn minn, og þar af leiðandi árinu eldri og vitrari. En stærsta breytingin verður vafalaust sú að ég verð ekki formaður Siðmenntar, félagsins sem hefur átt systurpartinn af orku minni og áhuga síðustu sex árin,“ segir hún.

Upphaflega hafi ekki verið langur aðdragandi að því að hún bauð sig fyrst fram í embættið. Hvorki hvítur reykur né stórfelld kosningabarátta. „Ég hafði bara hugmyndir um það hvert mig langaði að félagið stefndi og fékk stuðning til að veita því forystu,“ segir hún í færslunni.

„Þegar ég bauð mig fram til endurkjörs síðast, hét ég því svo að það yrði mitt síðasta kjörtímabil — allavega í þessari atrennu — og nú stend ég við það, tveimur árum síðar. Á afmælisdaginn minn, 1. mars, verður formaður Siðmenntar kjörinn enn á ný, og það verður allavega ekki ég,“ segir hún.

Inga segir ákvörðunina vera rétta fyrir sig og sína örsmáu fjölskyldu. Álagið sé mikið og formennskan hafi oft tekið á. 

„Ég skulda syni mínum það að setja hann efst í forgangsröðina. En ég finn líka að þetta er rétt fyrir félagið. Ég tel mig hafa gert félaginu gott á þessum árum, þó oft hafi færðin verið erfið, en ég er handviss um að nú þurfi að skipta um kaptein á þessu skipi,“ segir hún í færslunni.

Hún telur Siðmennt þurfa öðruvísi formann á því þroskastigi sem félagið er statt á núna. Hún hlakkar til að sjá hver það verður.

Þá segist hún afar þakklát fyrir traustið og tækifærin. Hún hafi gert mörg mistök og það hafi kannski verið lærdómsríkast af öllu. 

„Formennska í svona félagi fellst að mörgu leyti í slökkviliðsstörfum og það er alveg merkilegt, að eftir því sem eldarnir verða fleiri, því færari verður man í að takast á við þá,“ segir hún í færslunni. Formennska felist þó líka í því að velja kúrs og fylgja honum. Telur hún sig hafa fylgt sinni stefnu í samstarfi við marga aðra.

Loks tekur Inga fram að hún sé auðvitað ekki hætt í Siðmennt. Ef eitthvað er hafi hún nú meiri tíma til þess að nefna, ferma, gifta og jarða.

Færslu Ingu má lesa í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×