Skoðun

Á að leyfa starfs­fólki að staðna?

Jón Jósafat Björnsson skrifar

Framfarirnar hefjast fyrir utan þægindarammann. Ef þú ert sammála þessari fullyrðingu ættir þú ekki að hafa áhyggjur af börnunum þínum, vinum eða vinnufélögum sem eru að verða fyrir tímabundnum óþægindum vegna þess að þau eru að læra eitthvað nýtt.

Í starfi mínu sem fyrirtækjaráðgjafi í mannauðsmálum mæti ég stundum þeirri skoðun stjórnenda að best sé að setja símenntun í hendur hvers og eins starfsmanns frekar en að ýta einhverjum í aðstæður sem viðkomandi hefur sjálfur ekki óskað eftir.

Þessi hugsun er falleg að því leiti að auðvitað ætti fólk að vilja vaxa án þess að einhver annar ýti við því. Vandinn byrjar þegar fólk vill ekki vaxa. Þá þarf leiðtoginn í fyrirtækinu eða stofnuninni að taka ákvörðun um hvort að í boði sé að staðna. Ef viðkomandi fyrirtæki er á markaði þar sem lítið er að gerast, samkeppnin lítil, litlar sem engar tæknibreytingar og afkoman góð, gæti tímabundin stöðnun mögulega átt rétt á sér. En ef fyrirtækið er á samkeppnismarkaði má gera ráð fyrir að miklar breytingar séu í umhverfinu og stöðnun sé ekki góður kostur.

Leiðtogar hjálpa öðrum að vaxa. Þeir sætta sig ekki við stöðnun heldur taka þátt í að þróa umhverfi sitt, nýta tæknibreytingar og varða veginn fram á við. Þegar kemur að starfsþróun spyrja leiðtogar ekki hvort þú ætlir að þróast heldur hvernig þú viljir þróast.

Vöxtur er góður, þó hann geti verið krefjandi í stutta stund.

Höfundur er framkvæmdastjóri Dale Carnegie.




Skoðun

Sjá meira


×