Körfubolti

Besta frumraunin síðan Kevin Durant kom til Golden State

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jimmy Butler er nýjasti leikmaður Golden State Warriors.
Jimmy Butler er nýjasti leikmaður Golden State Warriors. Michael Reaves/Getty Images

Jimmy Butler spilaði stórkostlega í sínum fyrsta leik fyrir Golden State Warriors, þrátt fyrir að hafa ekkert æft með liðinu áður. 

Butler var skipt til Warriors á lokadegi félagaskiptagluggans, síðasta fimmtudag. Þau voru þó ekki formlega kláruð fyrr en allir leikmenn í skiptunum höfðu staðist læknisskoðun, sem gerðist ekki fyrr en síðdegis í gær.

Butler mátti því ekki taka þátt á morgunæfingu Warriors en var orðinn löglegur þegar leikurinn gegn Chicago Bulls var flautaður á.

Butler 25 stig og átti stóran þátt í að leiða Warriors til 132-111 sigurs eftir að liðið hafði lent mest 24 stigum undir í leiknum. 

Stigasöfnun Butler er sú besta í frumraun fyrir Warriors síðan Kevin Durant skoraði 27 stig í sinni frumraun árið 2016.

Þjálfarinn Steve Kerr var mjög hrifinn og ekki bara af skotunum sem rötuðu ofan í körfuna.

„Ég var mest hrifinn af sendingargetunni, hún breytir öllu fyrir okkur... Hann býr yfir miklum hæfileikum og líkamlegum styrk, á auðvelt með að komast á vítalínuna, en gefur okkur líka svo miklu meira en það. Hann er algjört ljón. Óstöðvandi afl.“

Warriors hafa nú unnið og tapað jafnmörgum leikjum eftir að hafa spilað 52 af 82. Þeir sitja í 11. sæti vesturdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×