Erlent

Selenskí segir nauð­syn­legt að tryggja varan­legan frið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínumenn virðast viljugri en Rússar til að ganga að samningaborðinu en báðir aðilar hafa sett ákveðin skilyrði fyrir viðræðum.
Úkraínumenn virðast viljugri en Rússar til að ganga að samningaborðinu en báðir aðilar hafa sett ákveðin skilyrði fyrir viðræðum.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segist reiðubúin til að ganga til hvers konar viðræðna um endalok átaka að því gefnu að Evrópa og Bandaríkin skuldbindi sig til að styðja áfram við Úkraínu.

Þetta sagði forsetinn í samtali við ITV um helgina.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við blaðamenn í gær að hann hefði átt samtal við Vladimir Pútín Rússlandsforseta um stöðuna í Úkraínu og að hann myndi eiga fleiri samtöl til að binda enda á stríðið.

Sagðist hann telja að einhver árangur hefði náðst í þá átt.

Þá sagði forsetinn fyrir helgi að hann teldi að Pútín stæði ekki á sama um mannfall á vígvellinum.

Selenskí sagði hins vegar að það væri ekki nóg að komast að samkomulagi um endalok átaka nú, heldur þyrfti að tryggja varanlegan frið. „Frosin“ staða myndi leiða til þess að átök brytust út að nýju, sem yrði ósigur fyrir alla.

Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, sagði í gær að diplómatar frá Bandaríkjunum myndu ferðast til Evrópu í vikunni til að eiga viðræður við aðila og ná þeim að samningaborðinu. Forsetinn væri reiðubúinn til að grípa til þvingana gegn Rússum til að fá þá til að semja.

Mikhail Galuzin, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, sagði hins vegar að Rússar þyrftu að sjá einhver ákveðin skref stigin í átt að því að tryggja „lögvarða hagsmuni“ Rússlands, að „útrýma“ rót átakanna og að horfast í augu við „nýjan raunveruleika“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×