Skoðun

Nóg af þögn – nú er kominn tími á að­gerðir

Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar

Undanfarnar vikur hefur nokkuð farið fyrir kjarabaráttu Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum vegna kjara leikara í Borgarleikhúsinu. Full ástæða er til að gefa þessu máli meiri gaum.

Leikfélag Reykjavíkur er stöndugt félag og hefur unnið frábært starf á undanförnum árum. Borgarleikhúsið blómstrar sem aldrei fyrr. Síðastliðin tvö ár hafa rekstrarlega séð verið félaginu hagstæð. Það þarf ekki að leita langt aftur í tímann til að sjá að það hefur ekki alltaf verið staðan, enda vita allir hvaða áhrif Covid-faraldurinn hafði á rekstur menningarstofnana hér á landi. Samkvæmt nýjasta ársreikningi Leikfélags Reykjavíkur er samanlagður hagnaður félagsins sl. 2 ár um 300 milljónir króna, handbært fé meira en 350 milljónir króna og verðbréf og innstæður um 550 milljónir króna. Vafalítið er um að ræða fjármuni sem munu verða nýttir til að halda áfram því frábæra starfi sem félagið hefur unnið á undanförnum árum.

Velgengni félagsins á undanförnum tveimur árum er komin til af þremur ástæðum: Öflugri stjórnun félagsins sem birtist í vel sóttum sýningum og metnaðarfullri, listrænni dagskrá, styrkum stuðningi Reykjavíkurborgar og listamannanna sem koma að sýningunum sem í boði hafa verið undanfarin ár. Full ástæða er til að geta sérstaklega framlags frá leikurum og öðrum starfsmönnum sem koma að sýningarhaldinu, enda vitað mál að það er ekkert leikhús án leikara.

Nú bregður svo við að listamenn innan Borgarleikhússins vilja semja um kaup sín og kjör. Fullkomlega eðlileg krafa, sjálfsögð mannréttindi. En þá kemur upp úr dúrnum að vilji til breytinga er, að því er virðist, takmarkaður. Þó vil ég setja fyrirvara við þessi orð mín, því það vantar meiri upplýsingar. Það vantar aukið gagnsæi.

Undanfarnar vikur hafa stjórnendur FÍL - félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum stigið fram með réttmætar ábendingar opinberlega um stöðu félagsmanna þeirra. Sérstaklega má minnast á baráttu listdansara og danshöfunda sem taka þátt í sýningum innan Borgarleikhússins að fá samninga til jafns við leikara og leikritahöfunda auk þess að setja fram þá sjálfsögðu kröfu að laun innan listgreina fylgi almennri launaþróun á Íslandi. Þessar ábendingar kalla á viðbrögð af hálfu Borgarleikhússins, en þó heyrist ekkert af hálfu leikhússins. Hvers vegna ekki? Miðað við frábæra stöðu Leikfélags Reykjavíkur virðist svigrúm til að koma til móts við kröfur FÍL. En þó gengur hvorki né rekur í viðræðunum.

Það er ekki boðlegt hvað upplýsingarnar um kjaraviðræðurnar hafa verið einhliða, svo og hve mikið skortir á upplýsingar um kjör þeirra listamanna sem nú eru í viðræðum. Hér þarf að gera gangskör, ef ekki nema vegna þess að það er allra hagur. Leikfélag Reykjavíkur er að standa sig frábærlega. Reykjavíkurborg hefur stutt við starf þess af myndarskap. Samt segir engin/n neitt þegar FÍL óskar eftir kjarabótum? Engin yfirlýsing af hálfu Borgarleikhússins? Engar upplýsingar settar fram um launaþróun undangenginna ára (til dæmis síðastliðinn áratug)? Enginn vilji af hálfu borgarinnar til að stíga fram og veita leiðsögn fyrir hvernig leyst verður úr þeim hnút sem stendur yfir í kjaramálum. Vissulega hefur þögnin ákveðna vigt, en öllu má ofgera.

Um þessar mundir ríkir almennt samkomulag um að launahækkanir í samfélaginu eigi að vera þær sömu fyrir allar stéttir og fyrir alla aðila á vinnumarkaði. BÍL mun ekki setja sig upp á móti slíku samkomulagi. En við það verður ekki unað af hálfu bandalagsins, ef það er ekki skýrt hvort launakjör listamanna innan Borgarleikhússins hafi á undanförnum áratug fylgt þeim kjörum sem samið hefur verið um á almennum og opinberum mörkuðum. Í kjaradeilum Borgarleikhússins og FÍL sem nú standa yfir leikur enn vafi á því hvort sviðslistafólk njóti sams konar réttinda og launþegar í samfélaginu. Þessum vafa þarf að eyða. Það er einn aðili sem hefur þar tögl og hagldir. Hann þarf að stíga fram, og það er Borgarleikhúsið sjálft og fyrirsvarsmenn þess.

Fyrir hönd BÍL kalla ég eftir auknu gagnsæi og meiri upplýsingum, það er allra hagur. Nú er ekki lengur tími þagnar, nú er tími aðgerða.

Að breyta hugarfari hjá heilu þorpi tekur tíma og það gerist aðeins ef við listamenn stöndum saman. Að við höldum áfram að finna hugrekki að segja upphátt það sem við viljum og af hverju við eigum það skilið.

Stjórn BÍL stendur með leikurum, dönsurum og danshöfundum í kjarabaráttu sinni. Við skorum á Reykjavíkurborg og stjórn Leikfélags Reykjavíkur að koma fram opinberlega með samningsafstöðu sína og ganga frá samningi við FÍL.

Höfundur er forseti Bandalags íslenskra listamanna.




Skoðun

Skoðun

Tákn­mál

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir skrifar

Sjá meira


×