„Ég býst við öðruvísi stemningu. Ég hef upplifað marga mismunandi grannaslagi en fólk hefur sagt mér að þessi sé sérstakur og honum fylgi mikill ákafi. Ákafinn gæti orðið enn meiri vegna þess að þetta er í síðasta skipti sem liðin spila á Goodison Park,“ segir Arne Slot, þjálfari Liverpool, um leik kvöldsins.

Fram undan er fyrsti grannaslagur Slot í stjórastól Liverpool en leikur kvöldsins átti að fara fram í desember. Honum var frestað vegna stormsins Darragh sem reið yfir Bretlandseyjar og setti, auk fjölda fótboltaleikja, flugsamgöngur í uppnám og olli töluverðum skemmdum.
Everton vann síðasta leik liðanna á vellinum 2-0 í apríl í fyrra. Liverpool vann aðeins tvo af sex leikjum liðsins í þeim mánuði sem gerði út um vonir liðsins um að kveðja þáverandi knattspyrnustjóra Jurgen Klopp með Englandsmeistaratitli.
Tomorrow we take our final trip to Goodison Park 👊 pic.twitter.com/qUZRWqvkTk
— Liverpool FC (@LFC) February 11, 2025
Alls hafa liðin mæst 119 sinnum á Goodison Park. Hvort um sig hafa Everton og Liverpool unnið 41 sinni og 37 sinnum hafa liðin gert jafntefli. Liðið sem vinnur í kvöld mun því hafa yfirhöndina í viðureignum liðanna tveggja á vellinum að eilífu.
Everton hefur snúið við blaðinu að undanförnu eftir ráðningu Skotans David Moyes. Hann stýrði Everton áður frá 2002 til 2013 en eftir ráðningu hans hefur liðið unnið þrjá leiki af fimm eftir strembið gengi framan af vetri.
Everton þarf frekari stig í baráttu liðsins við falldrauginn en Liverpool getur aftur á móti náð níu stiga forystu á toppi deildarinnar með sigri.
Liverpool útbjó sérstakt myndband vegna leiks kvöldsins og sögulegs gildis hans, sem má sjá að ofan.