Brimbrettafélag Íslands kærði framkvæmdirnar sem það telur að spilli einstöku öldusvæði á landsvísu. Brimbrettafólk stöðvaði framkvæmdirnar með mótmælum fyrr í vikunni.
Úrskurðarnefndin féllst á að stöðva framkvæmdirnar með úrskurði í gær. Ljóst væri að framkvæmdir sem ættu að standa yfir í þrjá mánuði væru yfirvofandi. Því hefði það ekki þýðingu að fjalla efnislega um kæruna nema tryggt yrði að framkvæmdir færu ekki fram á meðan málið væri til umfjöllunar hjá nefndinni.
Ýmis álitaefni væru uppi sem þörfnuðust rannsóknar og því væru efnisleg rök fyrir kærunni. Hægt væri að fara fram á flýtimeðferð á málinu.
Sveitarfélagið Ölfuss veitti ekki umsögn um kæruna en starfsmaður þess sagði úrskurðarnefndinni að það hefði stórkostlegt tjón í för með sér ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar, jafnvel þótt það væri tímabundið.