Körfubolti

Leik­manni Lakers leið eins og hann væri staddur í kvik­mynd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dalton Knecht hefur staðið sig vel á sínu fyrsta tímabili með Los Angeles Lakers og hann fær nú að spila áfram með liðinu.
Dalton Knecht hefur staðið sig vel á sínu fyrsta tímabili með Los Angeles Lakers og hann fær nú að spila áfram með liðinu. Getty/ Harry How/

Körfuboltamaðurinn Dalton Knecht upplifði skrýtna daga í síðustu viku þegar honum var skipt frá Los Angeles Lakers liðinu en var svo kallaður aftur til baka.

Lakers hafði ákveðið að láta Knecht fara til Charlotte Hornets í skiptum fyrir miðherjann Mark Williams. Þegar á hólminn var komið þá stóðst Williams ekki læknisskoðun og af þeim sökum var hætt við skiptin.

Knecht fékk nokkra daga frí til að jafna sig á öllu saman en hann var með Lakers liðinu á ný í nótt.

Knecht skoraði 10 stig á 17 mínútum í endurkomuleiknum en Lakers tapaði 131-119 fyrir Utan Jazz.

„Þetta var klikkaður tími. Mér leið eins og ég væri staddur í kvikmynd,“ sagði Dalton Knecht. ESPN segir frá.

„Þetta var samt erfitt fyrir mig. Þeir völdu mig og LA skiptir mig miklu máli,“ sagði Knecht.

Hann flaut frá Los Angeles til Charlotte á fimmtudaginn var. Fór síðan frá Charlotte til Deroit um helgina þar sem fyrsti leikurinn hans með Charlotte Hornets átti að vera á sunnudaginn á móti Pistons.

„Rob [Pelinka, framkvæmdastjóri lakers] hringdi þá í mig. Þú ert að koma til baka til okkar. Ég var bara orðinn spenntur að fara út á völl og spila sama hvar það yrði,“ sagði Knecht.

Knecht flaug til baka til Los Angeles á sunnudaginn og hitti Pelinka og JJ Redick þjálfara á mánudeginum.

„Ég vildi bara spila körfubolta. Ég sagði þeim það. Ég átta mig á því að þetta eru viðskipti en mín sýn var skýr. Spilum bara körfubolta,“ sagði Knecht.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×