Sigvaldi H. Ragnarsson bóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal var í þorrablótsnefndinni og hann segist við góða heilsu:
„Ég þurfti ekkert að jafna mig. Borðaði bara íslenskan súrmat og er aldrei betri í maganum en nú.“
Hraust svín þolir allt, eins og segir í Góða dátanum?
„Jájá,“ segir Sigvaldi og kímir. „En maturinn var fenginn að og þegar við fórum að fá grunsemdir um að það hafi hugsanlega komið upp matareitrun, sem var í hádeginu næsta dag. Þá kölluðum við til heilbrigðiseftirlitið.“
Eins og Vísir hefur sagt af er Heilbrigðiseftirlit Austurlands nú með sýnin til skoðunar og kemur varla út úr því fyrr en seinna í vikunni. Þar kemur einnig fram að þetta hafi verið kröftugt kveisa en tók skjótt af. Um 260 sóttu blótið en um 30 hafa verið staðfestir smitaðir.
„Þetta eru snörp veikindi. Yfirleitt niðurgangur. En flestir sem veiktust voru búin að jafna sig um hádegi í gær,“ segir Lára Guðmundsdóttir hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands í samtali við Vísi.

Vísir hefur reynt að ná tali af Guðrúnu Hafsteinsdóttur frambjóðanda en án árangurs. Sigvaldi staðfestir hins vegar að Guðrún hafi verið á blótinu.
„Jújú, hún var þarna stödd. Ég mætti á fund hjá henni klukkan 11 daginn eftir. Hún var á þeim fundi og hélt svo áfram sinni fundarferð. Og bar mikið lof á þorrablótið. Þannig að hún var uppistandandi.“
Sigvalda þykir sú samsæriskenning kostuleg, að mótframbjóðandi hennar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi haft eitthvað með eitrunina að gera, en sú kenning hefur flogið fyrir í flimtingum manna á milli.
„Nei, það held ég að fái ekki staðist. Þær voru reyndar saman á fundi fyrr um daginn en þá fór vel á með þeim. Enda bera þær lof hvor á aðra. Ég held að það sé meiri hasar í baklöndum,“ segir Sigvaldi.