Fótbolti

Feyenoord sló AC Milan út

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
AC Milan hefur lokið leik í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð.
AC Milan hefur lokið leik í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð. Giuseppe Cottini/Getty Images

Feyenoord er komið áfram í Meistaradeild Evrópu eftir 1-1 jafntefli gegn AC Milan í Mílanó. Þar sem fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri Feyenoord er hollenska félagið komið í 16-liða úrslit á meðan AC Milan er úr leik.

Leikurinn gat vart byrjað betur fyrir heimamenn þegar Santiago Giménez skoraði eftir aðeins rúmar 40 sekúndur. Hann neitaði að fagna marki sínu þar sem hann gekk í raðir AC Milan í janúar frá Feyenoord.

Staðan var enn 1-0 í hálfleik en á 51. mínútu fékk Theo Hernández sitt annað gula spjald, að þessu sinni fyrir dýfu, og þar með rautt. Heimamenn því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Það nýtti Feyenoord sér og jafnaði Julián Carranza metin með frábærum skalla eftir fyrirgjöf Hugo Bueno á 73. mínútu. Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur á San Siro í Mílanó.

Feyenoord er því komið áfram í Meistaradeild Evrópu og mætir Arsenal eða Inter í 16-liða úrslitum. Slakt gengi AC Milan heldur hins vegar áfram en liðið er í 7. sæti Serie A, 15 stigum á eftir toppliði Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×