Viðskipti erlent

Bobbingastaður í bobba

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hooters eru í vandræðum vegna mörg hundruð milljóna dala skulda og er í viðræðum um að lýsa yfir gjaldþroti til að geta endurskipulagt reksturinn.
Hooters eru í vandræðum vegna mörg hundruð milljóna dala skulda og er í viðræðum um að lýsa yfir gjaldþroti til að geta endurskipulagt reksturinn. GEtty

Fyrirtækið Hooters of America, sem rekur veitingastaðakeðjuna Hooters, er sagt vinna með lánadrottnum að því að lýsa yfir gjaldþroti á næstu mánuðum.

Fréttamiðillinn Bloomberg fjallar um mögulegt gjaldþrot Hooters og segist byggja á heimildarmönnum sem tengjast málinu. 

Samkvæmt umfjölluninni vinnur fyrirtækið nú með lögmannsstofunni Ropes & Gray að því að lýsa yfir gjaldþroti samkvæmt svokölluðum 11. kafla bandaríska gjaldþrotakóðans sem gerir fyrirtækjum kleift að endurskipuleggja rekstur sinn.

Fyrirhuguð gjaldþrotayfirlýsing er þó ekki alveg orðin endanleg. Lýsi fyrirtækið yfir gjaldþroti myndi málið fara fyrir dómstóla á næstu tveimur mánuðum að sögn heimildarmannanna.

Hart í ári hjá Hooters

Hooters heldur í dag úti rúmlega 300 veitingastöðum í 42 ríkjum Bandaríkjanna og 29 öðrum löndum. Fyrirtækið var selt árið 2019 til fjárfestingarfyrirtækjanna Nord Bay Capital og TriArtisan Capital Advisors. 

Opnun Hooters í Seoul í Suður-Kóreu árið 2010.Getty

Síðustu ár hafa verið snúin í veitingarekstri, bæði vegna Covid-faraldurs, stríðsástands í heiminum og breyttra neysluvenja neytenda. Hooters hafa fundið því og safnað gríðarháum skuldum.

Árið 2021 safnaði fyrirtækið um 300 milljónum Bandaríkjadala með skuldabréfum sem höfðu fasteignaveð að baki sér. 

Slík endurskipulagning á skuldum fyrirtækja er nokkuð algeng hjá veitingastaðakeðjum og öðrum fyrirtækjum sem byggja á keðjurekstri, svo sem líkamsræktarfyrirtæki.

Lokuðu fjölda staða í fyrra

Bloomberg greindu frá því á síðasta ári að Hooters væri að reyna að ná stjórn á mörg hundruð milljóna skuldum sínum. Stór liður í þeim aðgerðum var að loka um 40 veitingastöðum vítt og breitt um Bandaríkin sem stóðu ekki undir væntingum rekstrarlega séð.

Keðjan heldur úti rúmlega 300 veitingastöðum í 42 ríkjum Bandaríkjanna. Veitingastöðum var lokað í Rhode Island, Virginíu, Flórída, Kentucky og Texas.

Donald Trump með Hooters-stúlkum árið 2007, löngu áður en hann varð Bandaríkjaforseti.Getty

Hooters gáfu í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem sagði að ákvörðunin hefði verið tekin vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Hins vegar sagði einnig að á sama tíma væri verið að opna nýja veitingastaði bæði innanlands og utan Bandaríkjanna.

Fyrr í þessari viku lokaði fyrirtækið einum af fjórum Hoots Wings-stöðum sínum í Chicago. Hugmyndin með Hoots Wings er að bjóða upp á fjölskylduvænari upplifun þar sem starfsfólk er ekki í þröngum bolum og stuttbuxum heldur hefðbundnari þjónustufatnaði.

Hooters er þó ekki eina keðjan sem hefur lent í vandræðum undanfarið. Veitingastaðakeðjurnar TGI Friday's og Red Lobster lýstu báðar yfir gjaldþroti í maí. Fari Hooters sömu leið gæti það verið heillaspor fyrir framtíðarrekstur keðjunnar.

Uglur og brjóst

Nafnið Hooters er tvírætt og vísar bæði til uglunnar sem er einkennismerki fyrirtækisins og svo slangur fyrir brjóst kvenna. Fyrirtækið Hooters, Inc. var stofnað 1. apríl 1983  í Tampa í Flórída og í október sama ár opnaði fyrsti Hooters-staðurinn. 

Árið 1984 keyptu fjárfestar frá Atlanta, undir forystu viðskiptamannsins Roberts H. Brooks, réttinn að Hooters-nafninu og stofnuðu fyrirtækið Hooters of America. Hins vegar fékk Hooters, Inc. að halda stöðum sínum í Tampa í Flórída og í Chicago auk eins staðar á Manhattan.

Hooters-stúlkan Charmaine Fobbs fer með drykki til viðskiptavina á opnun Hooters Casino árði 2006.Getty

Brooks varð meirihlutaeigandi í Hooters of America árið 2002 og varð forstjóri fyrirtækisins. Undir stjórn Brooks rak Hooters rúmlega 400 staði en hann lést síðan árið 2006. Chanticleer Holdings keypti í kjölfarið fyrirtækið af Brooks-fjölskyldunni en seldi það svo 2019 líkt og hefur komið fram.

Staðurinn er þekktastur vegna klæðnaðar starfsfólks, sem eru meirihluti ungar konur, gjarnan kallaðar Hooters-stúlkur. Gengilbeinur staðarins klæðast þröngum hvítum bolum með lógói staðarins og appelsínugulum stuttbuxum og er mikið gert út á kynþokka starfsfólks.

Vegna þess hve kyngerðar konurnar eru sem vinna á Hooters hefur staðurinn líka verið gagnrýndur töluvert. Rannsókn The Conversation, sem eru óhagnaðardrifin rannsóknarblaðamannsamtök, sýndi að starfsfólk á svokölluðum „breastaurants“ eins og Hooters glímdi frekar við kvíða og átraskanir en starfsfólk hefðbundnari veitingastaða.

Hooters-stúlkurnar Hillary Vinson og Cameron Brooks ávarpa farþega í fyrstu flugferð Hooters Air frá Atlanta til Myrtle Beach árið 2003.Getty

Úr gamalli starfsmannahandbók Hooters sem var lekið árið 2005 kom fram að starfsfólk Hooters þyrfti að skrifa undir við ráðningu að það staðfesti þrjár yfirlýsingar. 

Í fyrsta lagi að starfið kræfist þess að það klæddist Hooters-stúlku-einkennisbúningnum, í öðru lagi að það þyrfti að eiga í samskiptum við viðskiptavini og skemmta þeim og í þriðja lagi að Hooters-konesptið byggðist á kynþokka þar sem vinnuumhverfið einkennist af gríni og skemmtilegum samtölum.

Fyrirtækið hefur einnig staðið fyrir ýmiss konar hliðar-gjörningum ef svo að orði mætti komast. Árið 2003 stofnaði fyrirtækið flugfélagið Hooters Air þar sem flugfreyjurnar voru klæddar eins og Hooters-stúlkur. 

Þá hefur fyrirtækið haldið úti Hooters-dagatalinu frá 1986 þar sem fáklæddar Hooters-stúlkur sitja fyrir og hefur gegnum tíðina verið styrktaraðili ökuþóra í NASCAR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×