Ratcliffe er með niðurskurðarhnífinn á lofti og í gær var tilkynnt að 150-200 starfsmönnum United til viðbótar yrði sagt upp. Samkvæmt Omar Berrada, framkvæmdastjóra United, eru þetta nauðsynlegar aðgerðir til að rétta af rekstur félagsins eftir tap síðustu ára. Síðasta sumar misstu 250 manns vinnuna hjá United í hópsögn hjá félaginu.
Ekki nóg með að 150-200 manns missi vinnuna hjá United von bráðar heldur hafa Ratcliffe og félagar ákveðið að hætta með ýmis fríðindi fyrir starfsfólk.
The Guardian greinir frá því að mötuneyti starfsfólks á Old Trafford verði lokað og hætt verði að bjóða upp á frían hádegismat. Í staðinn fær starfsfólkið fría ávexti.
Til svipaðra aðgerða verður gripið á æfingasvæði United, Carrington. Aðeins leikmenn United fá núna frían hádegismat en hinum verður boðið upp á súpu og brauð.
United áætlar að ein milljón punda sparist við það að hætta að bjóða starfsfólki upp á frían hádegisverð.
United er ekki einungis í vandræðum utan vallar heldur einnig inni á vellinum. Liðið er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið fjóra af fimmtán deildarleikjum sínum undir stjórn Rubens Amorim.