Erlent

Einn látinn í Mann­heim eftir að bíl var ekið á fólk

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Paradeplatz.
Frá Paradeplatz. René Priebe/dpa via AP

Einn er látinn og nokkrir eru slasaðir eftir að bíl var ekið á hóp fólks í miðborg Mannheim á Paradeplatz. Einn hefur verið handtekinn á vettvangi. Þetta staðfestir lögreglan í borginni. Áður hafði verið greint frá því að lögregluyfirvöld hefðu mikinn viðbúnað á svæðinu. 

Í umfjöllun Guardian segir að svörtum bíl hafi verið keyrt inn í mannskara á torginu. Áður hafði komið fram að nokkrir væru taldir slasaðir.

Nú hefur Guardian eftir lögreglunni í borginni að einn sé látinn. Einn hafi verið handtekinn. Er kannað hvort fleiri tengist málinu.

Þá segir staðarmiðillinn Die Rheinpfalz að mikill viðbúnaður lögreglu á á svæðinu. Sjúkrahús á svæðinu hafi verið beðin um að auka viðbúnaðarstig sitt. Íbúum er ráðlagt að halda sig frá miðborginni.

Fram kemur í umfjöllun Guardian að þessa dagana séu kjötkveðjuhátíðir haldnar víða um Þýskaland og þar á meðal í Mannheim. Skrúðganga hafi verið farin í gær og voru frekari viðburðir skipulagðir á morgun. Þetta hafi þýtt að mikill mannskari hafi verið í miðborginni.

Lögreglan í Mannheim hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins. Þar er það staðfest að bílnum hafi verið ekið á fólkið á torginu. Einn sé látinn og nokkrir slasaðir. Ekki kemur fram hve margir.

Þá segir lögregla að einn hafi verið handtekinn. Segir hún að frekari upplýsingar fáist ekki að svo stöddu. Rúmur mánuður er síðan maður keyrði bíl inn í þvögu mótmælenda í Munich í Þýskalandi, með þeim afleiðingum að tveir létust. Í desember létust sex manns þegar bíl var ekið á fólk þar sem það var statt á jólamarkaði í Magdeburg.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×