Fótbolti

Ronaldo missti af leik í Meistara­deildinni til að sleppa við svipu­högg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo missti af mikilvægum leik með liði Al Nassr í Meistaradeildinni í gær.
Cristiano Ronaldo missti af mikilvægum leik með liði Al Nassr í Meistaradeildinni í gær. Getty/Yasser Bakhsh

Cristiano Ronaldo var hvergi sjáanlegur þegar lið hans spilaði mikilvægan leik í Meistaradeild Asíu í gær. Það var mjög sérstök ástæða fyrir því.

Ronaldo spilaði ekki með sádi-arabíska liðinu Al-Nassr í markalausu jafntefli við íranska félagið Esteghlal í fyrri leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Asíu.

Ronaldo var þó hvorki meiddur né í leikbanni. Hann hefði því átt að öllu eðlilegu að spila þennan stórleik.

Þetta er mikilvægur leikur en seinni leikurinn verður síðan eftir viku á heimavelli Al-Nassr. Liðsfélagarnir héldu hreinu og treysta nú á það að Ronaldo verði til staðar til að skora mörkin í seinni leiknum.

Ástæðan fyrir því að Ronaldo ferðaðist ekki til Írans í gær var atvik sem gerðist fyrir tveimur árum síðan.

Árið 2023 faðmaði og kyssti Ronaldo unga fatlaða konu í Íran. Hann gerði það til að þakka henni fyrir mynd sem hún málaði af honum með því að nota aðeins fæturna. Þessi vinsemd og góðsemi Ronaldo kom honum aftur á móti í mikil vandræði í Íran.

Íranir líta á slíkt sem framhjáhald. Það er þegar þú sýnir kvenmanni, sem er ekki eiginkona þín, slíka ástúð og kærleiksþel, þá er eins og þú sért að halda framhjá konu þinni.

Refsing fyrir slíkt gæti verið fangelsisvist og 99 svipuhögg. Ronaldo tók því enga áhættu og missti af leik í Meistaradeildinni til að sleppa við þessi svipuhögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×